Friday, June 16, 2006

 

Fluttur

Hef aftur flutt mig yfir á www.aerir.blogspot.com

Wednesday, June 14, 2006

 

Börnin

Börnin gera hvert heimili bjartara. Þau slökkva aldrei ljósin.
(Ralph Bus)

Unglingar viðhalda birtu á heimilinu. Þeir geta ekki lært að slökkva ljósin.
(Ærir)

Tuesday, June 13, 2006

 

Í tilefni nýrrar deildar í efra

Sent kollega LG í morgun og þá var out-of-office svar, svo ekki kveður hann mikið næstu daga.

Í Oddshúsi vakna nú væringjar
er veitast að spiki með særingar
og fitunni brenna
svo búkarnir renna
í teymi offitu og næringar

 

Enn af skáldskaparmálum.

Ingólfur vinur minn Kristjánsson fór í reiðtúr á Löngufjörur um síðustu helgi og varð það tilefni nokkurra kvæða. M.Óla sendi honum eftirfarandi.

Löngufjörur

Við jökul sólin sígur,
sælir hesta beisla.
Teygar mjöð og mígur,
meramannaveisla!

Löngufjörur feta
fákar skeifum búnir.
Hrista fax og freta,
flestir ferðalúnir.

Ingó situr í söðli sæll,
en má vart mæla.
Kinnar rjóðar af röðli,
ríkir himnasæla.


Ég sendi IK bara eina gamla sonnettu sem ég átti frá fyrri tíð.

Löngufjörur
Er dagur rennur döggin sólu kyssir
og dagbjört bíður sjónarrönd í hafi.
Á fjörum löngum fæðast sker úr kafi
og fyrirheit sem aðeins einn þú vissir.

Þar aldan gárar eilíf létt við fætur,
og öðuskel á fjörugrjótið leikur.
Þú aldrei aftur orðið getur smeykur,
ef undralagið heyrir baki nætur.

Nú daggarbjartur drösull svífur heiður,
í dýrlegri reið engin orðin mælir,
er jórinn ber þig jökli nær og glaður.

Í eyjum fjarskans ernir búa hreiður,
og urta ein við fjöruborðið gælir,
þá hugsýn geymdu í hjarta þínu maður.


Fékk þá sendingu frá MÓla
Þarn fórstu alveg með mig fóstri! Þessi snilld er mér ofviða.

Mér er ei með tungu tamt
að tjá mig meira.
Ég mun kannski semja samt
sonnettu og fleira?

Undir lok dags fæddist þessi:
Nú erum vér gamlir og gráir
getum hvorki gengið né ort.
Höltum oss hugleysið háir
hamið er heilabú vort.

Saturday, June 10, 2006

 

Ekki alveg í kút.

Í klettum drengur klöngrast létt og kemst í fréttir,
kroppinn réttir, haminn þéttir,
kvíða léttir er kemst á stéttir.

góða helgi.

Friday, June 09, 2006

 

Kveðinn í kútinn.

Svei mér ef ég hef ekki verið kveðinn í kútinn og það allhressilega. Þetta var að berast frá MÓla úr efra:

Fjallakvíði finnst nú víða fólks með lýðum.
Undan svíður ofsa kvíða,
Esjuhlíðar fá að bíða.

Meður blíðum meyjum fríðum maður skríður
hátt í hlíðum haldinn kvíða,
HAMið síður frær að bíða.

 

Heiðin (13)

Hann hrökk skyndilega við. Vaknaði úr hugarástandi sem var farið að verða alltof algengt síðari hluta nætur. Hnífaparið lá enn á borðinu óhreyft. Það var dagrenning. Barstúlkan kom aftur og benti á ósnertan matinn og bandaði með höndunum. Hann áttaði sig á hvað hún vildi en yppti öxlum. Tónlistin ruglaði hann. Safi, safi, -safiatou, - ómaði kunnuglega. Ljóð Mamadou Sissko, hann gat ekki fylgt vestur-afríska tungumálinu eða var það franska núna. En hann söng ekki sjálfur. Santana og Angélique Kidjo smullu saman í þessu gamla Herbie Hancock lagi. Hann rifjaði upp hvernig takturinn hríslaðist um taugar hans. Þetta er næturlag. Lag til að gleyma en lifa samt við frumleika. Láta aðrar kenndir ná tökum á sér. Það hafði það svo sannarleg gert. Oft. Hann notaði það alltaf.

Úti fjölgaði bláum ljósum, blikkandi, þannig að dagskíman hvarf og skuggar af stólunum í kring urðu annarlegir. Voru þeir búnir að finna hann. Hafði glæpurinn komist upp? Hann greip í barstúlkuna. Hrifsaði til sín annan hnífinn og hún vísaði honum þegjandi og hljóðalaust á bakdyrnar, sem lágu út í skúmaskot og öngstræti borgarinnar.

Að baki hljómaði safí, safí, safíatou. Safíatou.

Thursday, June 08, 2006

 

Raunamæða

Frá MÓla


Reynir nú rauna er mæddur
og ræfillin illa er klæddur,
því slitinn er strengur
og strákur ei lengur
stígur á fjöll - hann er hræddur!

og því gat ég ekki látið ósvarað:

Hann Reynir er hættur að mæðast,
enginn sem séð hefur´ann klæðast,
á tilteknu svæði
í náttúru klæði
mun aftur að honum hæðast

 

Tangartak

Í brjósti mér slitnaði strengur
við hugrekki bý ég ei lengur
aftur á fjöllin ei sný
heldur í borgina flý
því þær leita með logandi tengur

 

Hvert þó í logandi

Þetta var að berast frá kollega GKG, þeir gefast ekki upp í efra:

Nú er að toga og toga
þar til teygjan hún vísar í boga
en ekki er víst
sem drengur við býst
að ástin hún svo muni loga

 

Strengir / svar til kollega

Horfa vilja dömur á drenginn
og dásama ef missir hann þvenginn
því með andköfum sjá
hve langt hann mun ná
ef teygja þeir á honum strenginn

 

Veiðivísa

Þessa vísu fékk ég senda frá MÓla kollega mínum og segir frá aflabrögðum hans.
Í Mývatnssveit var mikið rok,
mér tókst þó að standa.
Tókst mér eftir talsvert mok
tugum tveim að landa.

Höf: MÓla


PS: Skyldi Halur sem ég veit einan meiri veiðimann en aðra geta betur (kveðið)?

 

Kúturinn

Enn er reynt að kveða mig í kútinn. Þetta barst í morgun frá kollegum mínum:

Þessi kom frá MÓla:

Haldi´ð að þurf´ekki að HAM´ann?
Helvíti yrði það gaman!
Nærbuxnastrengjum
nær það úr drengjum.
Á Esjuna svífum svo saman.


Þessi frá G.Popp:

Haldið þið áfram að spjalla!
Orðhengilshátt má það kalla!
Um gleði og sorg
stunur og org
Reynis er hélt hann til fjalla.


og þessi frá GKG:

Þvílíkar þrumandi vísur
og þolmiklar göngukrísur
af lausgirtum drengjum
nærbuxnastrengjum
og óttaslegnar skvísur

Wednesday, June 07, 2006

 

Studiosi philosophiae

Ég þarf að fara að hressa upp á latínuna (og stafsetninguna). Er ekki viss um að hausinn sé réttur. En hvað um það. Stráksi minn varð stúdent á dögunum eins og lesa mátti á bloggi mömmu hans. Þá höfum við öll fjögur útskrifast úr eðlisfræðideild. En leiðir okkar hafa legið í mismunandi áttir. Reyndar sá eldri farinn að feta í fótspor föðursins eftir að hafa verið fyrst 2 ár í stærðfræði. En ég er ekki síður ánægður með val þess yngri. Hann er búinn að skrá sig í heimspeki í H.Í. og reyndar muldrar eitthvað um sálfræði líka, - en ekki næsta vetur. Þetta er gott val og sýnir sjálfstæði í hugsun og verki. Vildi að ég hefði haft svona hugrekki á sínum tíma. En í minni heimabyggð var háskólanám það eitt sem skilaði manni embættisprófi.

Reyndar var árið eftir menntaskóla hjá mér viðburðarík. Kenndi 10 ára krökkum hálfan vetur í einangruðum útkjálka. Lærði rafsuðu og sauð ofna saman í Ofnasmiðju Norðurlands. Gerðist sjómaður. Vann í skógrækt í Skotlandi og var landvörður í Herðubreiðalindum um sumarið. Fór svo í háskólann um haustið og bjó á Garði. Þetta var viðburðaríkt ár. Mikið á strákurinn minn gott að vera á þessum aldri. Þá á maður að njóta þess að vera til og gera það sem hugurinn girnist.

(Reyndar á maður alltaf að gera það).

This page is powered by Blogger. Isn't yours?